12/15/11

NÚ Á ÉG HVERGI HEIMA

NÚ Á ÉG HVERGI HEIMA

Einn sunnudag tók ég svo „Dag í Bjarnardal“ og fór að lesa. Eigi hafði ég mörgum blöðum flett en ég var orðinn agndofa við lesturinn. Ég gleymdi öllu, sem ég átti að gera. Ég gleymdi sjálfum mér. – gleymdi jafnvel sjálfri tilverunni. Ég man ekki eftir að hafa lesið öllu tilþrifameiri bók. Ljóslifandi mannlýsingar og kjarnyrt samtöl, ásamt frábærum náttúrulýsingum, gefa sögunni sinn svip. Stórir atburðir reka hver annan. Sterkar persónur, með heilsteypt norrænt eðli, geisast fram á sjónarsviði. Þó verður eigi hjá því komizt, að átelja höfundinn fyrir það úrræðaleysi í skáldlegum skilningi, að láta svo tíð andlát henda bæði börn og ýmsa af stórbrotnustu ættmennum hins konungborna kyns, sem hann lýsir einmitt svo snilldarlega í sögum sínum.

Stíll Konráðs á „Degi í Bjarnardal“ er stórfenglegur. Hann ýmist sviptir skáldfáknum til og fer hamförum, eða hann lætur þennan undra-skáldfák sinn fara á þýðasta góðgangi, allt eftir atburðum sögunnar, stórum eða smáum. Og svo djarftækur er hann á málinu, að í hvert skipti sem eitt allra ritsnjallasta söguskáld Íslendinga, Halldór Kiljan Laxness hefur vogtað sér slíkt, hefur heill hópur þjóðfélagsþegna risið upp og hrópa í kór að skáldinu. Því það virðist vera orðið alsiða, annað hvort að skamma mestu listamenn þjóðarinnar eða þegja þá í hel. En nú þarf ekki að deila við dómarann.

Konráð kann málið. Hann þekkir uppruna óteljandi orða. Það þarf því enginn að ætla sér að koma honum á kné í þeirri glímu, hvað þá meira.

Hugsið ykkur, að við ættum allar Íslendingasögurnar okkar á þvílíku nútímamáli, og er á „Degi í Bjarnardal“, með myndum eftir okkar beztu listamenn. Og þá um leið Grettissögu með mynd af sundför kappans úr Drangey. – Hvílíkur munaður.

- Úr Íþróttamálum III eftir Jón Benediktsson prentara.
Nú á ég hvergi heima.

Ég hef verið annars hugar um hríð. Ekki míns eigin, heldur einhvers annars – með spurninguna: Hvað segir það um okkur, okkar samfélag? á heilanum, upptekinn af dauða og gleymdum skáldum. Kona gengur inn á sýninguna, skautar með hraði í gegnum rýmið og spyr hvers vegna verið sé að sýna þetta. Ég muldra eitthvað um tímann og forgengileika en það stendur ekki á svari hjá henni: „en kemur ekki bara eitthvað annað í staðinn.“
Ég gat ekki annað en sagt jú.
Auðvitað er það þannig. Nákvæmlega þannig. Það kemur eitthvað annað í staðinn eins og gerst hefur undanfarin ár og áratugi. Í stað prentunar kemur sjónvarpsútsending eða vefsíða. Í stað heillar offsetprentsmiðju ein ljósritunarvél. Þannig virkar tæknin. Hún gerir fólk óþarflega nálægt.

Lífið er einfaldlega breyting. Norðurland endurminningarinnar er ekki Norðurland eins og það lítur út í dag. Og í stað þess að lifa í minningum er mál að huga að Norðurlandi eftirvæntingarinnar.

Þau verk sem eru til sýnis í dag þurfa ekki að vera listaverk. Þau geta verið stofumynd, skúlptúr og gjörningur. En þú þarft ekki að horfa á þau þannig.
Hér er unnið með arf. Hér er tekið til við að ljúka verki sem aldrei náði að klárast. Nú hafa úrelt tímarit öðlast tilgang á ný. Og þetta samfélag, sem hér er við lýði innan marka sýningarinnar, mun ekki gleyma Dag í Bjarnardal í bráð.

Mér hefur verið hugsað til framtíðarinnar og eftirvæntingarinnar. Ég finn hana ekki í nútímanum. Ég skil heldur stundum ekki tilganginn með Norðurlandi. Hann býr ekki í orðræðu samtímans. Eða byggir framtíðin á akureyskri auðlindanýtingu? Húsvískum hagvexti? Norðlenskri nýsköpun? Ofstuðlun og þýddum hagfræðihugtökum?

Í dag er stofndagur bókaforlagsins Eyland, sem mun til að byrja með fást við útgáfu bókverka. Fyrsti afraksturinn er til sýnis í Flóru, handan götunnar. Við biðjum þig að fara yfirum á eftir. Við byrjum smátt en hyggjum á stærra.

Með þessum hætti, með stofnun útgáfu, tökumst við undirrituð á við arfleifðina á okkar forsendum. Arfleifð þýðir enda ekki að lifa á fornri frægð heldur leggja rækt við störf kynslóða. Arfleifð er að takast á hendur að gera betur en þeir sem maður stendur í blóðskuld við. Arfleifð er ekki að halda í sama horfið, hvað sem tautar. Arfleið er að halda áfram: halda við hefðum en taka við breytingum.

En já, við vitum ekki endilega tilganginn með þessu öllu saman. Hann er eiginlega enginn og skiptir heldur ekki máli. Það kemur alltaf eitthvað annað í staðinn, og þannig áfram án spurninga. Bara svo og svo. Og loks næst.


Hjálmar Stefán Brynjólfsson og Jóna Hlíf Halldórsdóttir


7/27/10

REIMLEIKAR-HÚSLESTUR FRÁ 20. ÖLD



Reimleikar – húslestur frá 20. öld

Um helgina verður ljóðasýningin Reimleikar sett upp í Verksmiðjunni. Sýningin stendur yfir eina helgi frá 23. til 25. júlí. Á sýningunni er ljósi brugðið á íslenska ljóðlist, upptökur og upplestur. Þar sem gefnar hafa verið út á Íslandi með upplestri ljóðskálda, og þær settar upp til spilunar. Sýningin er í grunninn bókmenntasöguleg. Hægt verður að hlusta á skáld og skáldskap frá ólíkum tímabilum og hlusta sig þannig í gegnum íslenska ljóðlist 20. aldar. Sýningin býr einnig yfir mörgum lögum: hægt er að njóta raddanna og bera saman raddblæ skáldanna, hægt er að njóta ljóðanna, hægt er að njóta sögunnar sem býr í útgáfunni og upptökutækninni. Á endanum stendur áheyrandinn líka frammi fyrir spurningum um eðli upptökunnar og hins talaða orðs. Verksmiðjan sjálf á Hjalteyri skiptir sköpum fyrir sýninguna, tilkomumikill hljómburður hússins skapar sýningunni einstaka umgjörð. Enginn fær notið upplesturs sem hefur verið upptekinn, nema hann fari fram í húsi sem hæfir. Verksmiðjan er fullkomlega eyðilegur staður - hún leyfir fólki að hlusta eitt, sér og út af fyrir sig, þótt allir fái notið ljóðlistarinnar í sameiningu. Sýningin er önnur í röðinni af þremur sýningum sem tengjast bókmenningu og margmiðlun. Jóna Hlíf Halldórsdóttir og Hjálmar Stefán Brynjólfsson setja upp sýninguna. Áður hafa þau dansað á mörkum bókmennta og myndlistar í sýningunni Bráðum – áminning um möguleika gleymskunnar sem sett var upp í nóvember 2009 í GalleríBOX. Síðasta sýningin fer fram árið 2011. Athugið: aðeins þessi eina helgi.

12/4/09

 B R Á Ð U M

- áminning um möguleika gleymskunnar -

Spurningin um það til hvers við yfir höfuð gerum hlutina er alltaf skammt undan. Hvað þá í dag, gagnvart þessum gömlu bókum, gömlu kvæðum og gömlu textum.

Til hvers að setja upp sýningu á bókum? Hvað þá gömlum bókum? Er ekki alltaf verið að lesa upp úr nýjum bókum fyrir hver einustu jól? Er það ekki alveg nóg?

Jújú, sjálfsagt segja flestir. Enda virðist manni stundum komið alveg nóg af bókum, þessum gallagripum sem ólíkt tölvunni eða sjónvarpinu heimta sífellt meira pláss. Samt stendur maður sig að því fyrir hver einustu jól að vilja glugga í hina eða þessa bókina, jafnvel að skjótast niður í eina af tveimur bókabúðum bæjarins og gera vel við sig.

Þegar svo árlögin hrannast upp, bókajól ofan á bókajól, og setjast ofan á það sem þegar hefur verið gefið út vill það gerast að bækur og höfundar gleymast.

En þegar skáld gleymast, væri kannski stundum ráð að spyrja: hvað segir þetta um okkur? Okkar samfélag?“, sagði Gyrðir Elíasson skáld í ágætri grein um Guðmund Frímann.

Þetta teljum við reyndar vera þjóðráð: að staldra við og spyrja – hvað segir þetta um okkur?

Fyrir utan þau viðteknu sannindi að við höfum meira gaman af kápum en texta, mætti benda á eitt: Á Íslandi er til aragrúi af skáldum og myndlistarmönnum, leikurum, leikstjórum og þeim sem sýsla með skapandi iðju. En ekkert allt of mikið af fólki sem sérhæfir sig í að skrifa eða fjalla á einhvern hátt um þetta skapandi starf sem er unnið hér á landi. Orðið „gagnrýni“ er takmarkað við þumalputtastarf í stuttum umfjöllunum: annað hvort fær leiksýning, myndlistarsýning eða bók uppþumal eða niðurþumal. Svo er tekið til við eitthvað annað.

Þetta er kannski ástæða fyrir því að skáld gleymast. Önnur ástæða gæti verið sú að fólk einfaldlega nenni ekki að lesa lengur það sem þessi skáld hafa fram að færa. Kannski lestrarsmekkur fólks hafi breyst, kannski lestrarhæfni. Kannski eru textar alltaf að verða minna aðlaðandi. Kannski var afrakstur iðju hinna gleymdu skálda bara ekki nógu góður.

Yfirleitt er strokleðrið of ríflega notað við samningu bókmennta-sögunnar, af því tiltekin viðhorf ráða alltaf mestu á hverjum tíma og stundum eiga þau viðhorf litla samleið með skáldskap, nema þá einhverju broti hans. ...

 

Þeir sem þekkja að ráði til íslenskrar smásagnagerðar vita að bestu sögur Guðmundar [Frímanns] verður að telja með því fremsta sem gert var í þeirri grein á sínum tíma. ...

 

Sáralítið hefur verið skrifað um skáldskap Guðmundar Frímanns.“

- Gyrðir Elíasson

Ef einhverjir skyldu vera að velta fyrir sér undirtitli sýningarinnar – áminning um möguleika gleymskunnar, þá má taka þetta fram: „Möguleiki gleymskunnar“, þetta er satt best að segja hálf innantóm orðasamsetning. Frasering sem minnir dálítið á umræðuna um „tækifæri kreppunnar“, heilum tveim dögum eftir bankahrunið í fyrra. Þó hefur gleymska einn dásamlegan kost. Að stundum gleymist það sem gott er og fagurt. Og þá fylgir því góð tilfinning að draga það gleymda aftur fram í dagsljósið.

Þetta geturðu prófað sjálf(ur). Hér er næði. Bókahilla. Heitt á könnunni. Nokkrar vel valdar bækur tengdar eyfirskum og þingeyskum. Kjöraðstæður fyrir grúsk

En semsagt, til hvers að setja upp sýningu á gömlum bókum: til hvers að púkka upp á skruddur, til hvers núna? Eiga gamlar bækur eitthvert erindið við nútímafólk? Til hvers að minna á það sem er gamalt og gott og hefur áður verið gert í bókaútgáfu, þegar allir eru að keppast við að koma nýjum bókum út fyrir jól, og halda starfseminni gangandi, halda lífi í prentinu?

Þessi sýning á sér að vissu leyti tilgang en er fyrst og fremst tilraun; tilraun til að vinna gegn gleymskunni. Þetta er áminning um það góða starf sem áður hefur verið unnið og er unnið enn í dag. Hylling. Bráðum gæti komið sá tími að þekkingin á því starfi sem unnið var á Akureyri í prentsmiðjum við að gefa út ágætar bækur eftir bæði Þingeyinga og Eyfirðinga, verði horfin.

Akureyri 2009,

Hjálmar Stefán Brynjólfsson og Jóna Hlíf Halldórsdóttir