12/4/09

 B R Á Ð U M

- áminning um möguleika gleymskunnar -

Spurningin um það til hvers við yfir höfuð gerum hlutina er alltaf skammt undan. Hvað þá í dag, gagnvart þessum gömlu bókum, gömlu kvæðum og gömlu textum.

Til hvers að setja upp sýningu á bókum? Hvað þá gömlum bókum? Er ekki alltaf verið að lesa upp úr nýjum bókum fyrir hver einustu jól? Er það ekki alveg nóg?

Jújú, sjálfsagt segja flestir. Enda virðist manni stundum komið alveg nóg af bókum, þessum gallagripum sem ólíkt tölvunni eða sjónvarpinu heimta sífellt meira pláss. Samt stendur maður sig að því fyrir hver einustu jól að vilja glugga í hina eða þessa bókina, jafnvel að skjótast niður í eina af tveimur bókabúðum bæjarins og gera vel við sig.

Þegar svo árlögin hrannast upp, bókajól ofan á bókajól, og setjast ofan á það sem þegar hefur verið gefið út vill það gerast að bækur og höfundar gleymast.

En þegar skáld gleymast, væri kannski stundum ráð að spyrja: hvað segir þetta um okkur? Okkar samfélag?“, sagði Gyrðir Elíasson skáld í ágætri grein um Guðmund Frímann.

Þetta teljum við reyndar vera þjóðráð: að staldra við og spyrja – hvað segir þetta um okkur?

Fyrir utan þau viðteknu sannindi að við höfum meira gaman af kápum en texta, mætti benda á eitt: Á Íslandi er til aragrúi af skáldum og myndlistarmönnum, leikurum, leikstjórum og þeim sem sýsla með skapandi iðju. En ekkert allt of mikið af fólki sem sérhæfir sig í að skrifa eða fjalla á einhvern hátt um þetta skapandi starf sem er unnið hér á landi. Orðið „gagnrýni“ er takmarkað við þumalputtastarf í stuttum umfjöllunum: annað hvort fær leiksýning, myndlistarsýning eða bók uppþumal eða niðurþumal. Svo er tekið til við eitthvað annað.

Þetta er kannski ástæða fyrir því að skáld gleymast. Önnur ástæða gæti verið sú að fólk einfaldlega nenni ekki að lesa lengur það sem þessi skáld hafa fram að færa. Kannski lestrarsmekkur fólks hafi breyst, kannski lestrarhæfni. Kannski eru textar alltaf að verða minna aðlaðandi. Kannski var afrakstur iðju hinna gleymdu skálda bara ekki nógu góður.

Yfirleitt er strokleðrið of ríflega notað við samningu bókmennta-sögunnar, af því tiltekin viðhorf ráða alltaf mestu á hverjum tíma og stundum eiga þau viðhorf litla samleið með skáldskap, nema þá einhverju broti hans. ...

 

Þeir sem þekkja að ráði til íslenskrar smásagnagerðar vita að bestu sögur Guðmundar [Frímanns] verður að telja með því fremsta sem gert var í þeirri grein á sínum tíma. ...

 

Sáralítið hefur verið skrifað um skáldskap Guðmundar Frímanns.“

- Gyrðir Elíasson

Ef einhverjir skyldu vera að velta fyrir sér undirtitli sýningarinnar – áminning um möguleika gleymskunnar, þá má taka þetta fram: „Möguleiki gleymskunnar“, þetta er satt best að segja hálf innantóm orðasamsetning. Frasering sem minnir dálítið á umræðuna um „tækifæri kreppunnar“, heilum tveim dögum eftir bankahrunið í fyrra. Þó hefur gleymska einn dásamlegan kost. Að stundum gleymist það sem gott er og fagurt. Og þá fylgir því góð tilfinning að draga það gleymda aftur fram í dagsljósið.

Þetta geturðu prófað sjálf(ur). Hér er næði. Bókahilla. Heitt á könnunni. Nokkrar vel valdar bækur tengdar eyfirskum og þingeyskum. Kjöraðstæður fyrir grúsk

En semsagt, til hvers að setja upp sýningu á gömlum bókum: til hvers að púkka upp á skruddur, til hvers núna? Eiga gamlar bækur eitthvert erindið við nútímafólk? Til hvers að minna á það sem er gamalt og gott og hefur áður verið gert í bókaútgáfu, þegar allir eru að keppast við að koma nýjum bókum út fyrir jól, og halda starfseminni gangandi, halda lífi í prentinu?

Þessi sýning á sér að vissu leyti tilgang en er fyrst og fremst tilraun; tilraun til að vinna gegn gleymskunni. Þetta er áminning um það góða starf sem áður hefur verið unnið og er unnið enn í dag. Hylling. Bráðum gæti komið sá tími að þekkingin á því starfi sem unnið var á Akureyri í prentsmiðjum við að gefa út ágætar bækur eftir bæði Þingeyinga og Eyfirðinga, verði horfin.

Akureyri 2009,

Hjálmar Stefán Brynjólfsson og Jóna Hlíf Halldórsdóttir